*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 13. nóvember 2020 14:12

Eldsneytissala dróst saman um 14%

Sala á eldsneyti í september var 13,6% minni en á sama tímabili í fyrra. Salan jókst þó í sumar vegna ferðagleði landans.

Ritstjórn
epa

Eldsneytissala í september 2020 var um 28,2 þúsund rúmmetrar samkvæmt bráðabirgðatölum. Er um að ræða umtalsvert minni sölu, eða 13,6%, en salan í september 2019 sem var 32,6 þúsund rúmmetrar. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands

„Stór hluti eldsneytissölu í fyrra var á erlend greiðslukort, eða um 18%, á meðan að aðeins um 2% af sölu þessa árs hefur verið með þeim greiðslumáta. Samanlögð sala fyrir utan erlend greiðslukort var því 27,7 þúsund rúmmetrar í september í ár sem er 3,5% meiri sala en í september í fyrra (26,7 þúsund rúmmetrar),“ segir í frétt Hagstofunnar.

Mikill samdráttur hafi orðið í eldsneytissölu á erlend kort í tengslum við ástandið sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins. Til samanburðar hafi hlutfall af rúmmáli eldsneytis sem selt var á erlend kort verið á bilinu 15-20% yfir sumarmánuðina í fyrra en verið á bilinu 0,5-7,7% í sumar.

Íslendingar hafi þó hins vegar ferðast mikið innanlands þannig að samanlögð sala fyrir utan erlend greiðslukort í sumar (maí-ágúst) var 140,9 þúsund rúmmetrar sem er 17,6% meiri sala en hún var fyrir sama tímabil í fyrra (119,8 þúsund rúmmetrar). Heildarsala það sem af er árinu 2020 sé um 1,9% minni en fyrir sama tímabil í fyrra.