*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 12. ágúst 2020 16:36

Eldsneytissala Skeljungs minnkar um 17%

Heildarsala eldsneytis hjá Skeljungi dróst saman um 17% á fyrri helmingi árs, félagið hefur hagnast um 274 milljónir á sama tíma.

Ritstjórn
Árni Pétur Jónsson er forstjóri Skeljungs.
Eyþór Árnason

Skeljungur hagnaðist um 114 milljónir króna á öðrum ársfjórðung en 295 milljónir á sama tímabili árið 2019. Hagnaður félagsins nemur 274 milljónum á fyrri helmingi ársins en var 706 milljónir fyrir ári síðan sem er 62% samdráttur milli ára. Félagið hefur rétt í þessu birt árshlutauppgjör.

Framlegð félagsins hefur aukist milli ára, bæði á öðrum fjórðungi ársins og á fyrri hluta árs. Hagnaður Skeljungs fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 633 milljónum á öðrum fjórðungi og 1.247 milljónum á fyrri hluta árs en 1.672 milljónir á fyrra hluta árs 2019.

Sjá einnig: Kaupir 25% hlut í Brauð & Co og Gló

Heildarsala eldsneytis dróst saman um 17% á fyrri helmingi ársins og nam 198 milljónum lítra. Mest dróst sala á flugeldsneyti eða um 38% en sala á skipaeldsneyti dróst saman um 20%.

Sala nam 9.433 milljónum króna á öðrum fjórðungi, samanborið við 13.356 milljónir á sama tímabili fyrra árs. Samdrátturinn nam því ríflega 29% en lækkun á kostnaðarverði seldra vara nam 36,4%. Laun og launatengd gjöld námu 1.031 milljón króna en 710 milljónum á öðrum fjórðungi 2019.

Heildareignir Skeljungs voru 26.783 milljónir í lok fjórðungsins, þar af voru 11 þúsund milljónir rekstrarfjármunir og tæplega fjögur þúsund milljónir viðskiptavild. Heildarskuldir námu 17.181 milljón króna, þar af 9.577 skammtímaskuldir og 3.370 milljónir vegna viðskiptaskulda. Í lok fyrri hluta árs var eigið fé félagsins 9.603 milljónir og eiginfjárhlutfall var 35,9%.

Greiddur arður og kaup á eigin bréfum

Samþykkt var á aðalfund 5. mars að greiða 600 milljónir króna í arð sem fór fram 2. apríl. Félagið keypti einnig eigin bréf fyrir 133 milljónir króna á fjórðungnum. Engin arðgreiðsla fór fram á fyrri hluta árs 2019. Á aðalfundi fékk stjórn heimild til að kaupa allt að 10% hlut í félaginu.

Handbært fé félagsins jókst um 1.100 milljónir króna á fyrri hluta árs og nam 1.692 milljónum í annars ársfjórðungs. Sterkt sjóðstreymi félagsins er sagt vera vegna minni fjárbindinga í birgðum og kröfum.

Enn fremur kemur fram að fækkun ferðamanna og umsvif tengd ferðamennsku hafði meiri áhrif á rekstur Skeljungs á Íslandi en í Færeyjum.