Skotland mun á næstu dögum lenda í eldsneytisskorti, eftir að hótanir um verkfall í stærstu olíuhreinsunarstöð landsins, Grangemouth, urðu til þess að henni var lokað af öryggisástæðum. Hún dreifir um 200.000 tunnum af olíu á dag.

Samkvæmt frétt Scotland on Sunday gætu bensínbirgðir klárast í næstu viku, en bensínstöðvar landsins eiga 3 til 7 daga birgðir. Óttast er að fólk reyni að hamstra bensín á næstu dögum.

Starfsmenn olíuhreinsunarstöðvarinnar hótuðu 48 klukkutíma verkfalli. Í kjölfarið byrjuðu menn að slökkva á stöðinni, en það teku nokkra daga og hefur aldrei verið gert áður. Að hefja vinnslu í henni aftur er einnig flókið ferli sem tekur nokkurn tíma.

Yfirvöld í Skotlandi sögðu í gærkvöldi að þau hafi skipulagt viðeigandi ráðstafanir vegna verkfallsins, en upplýstu ekki í hverju þær felast.