Olíuverslun Íslands hækkaði verð á eldsneyti í dag, bensín um 6 krónur hvern lítra og dísilolíu um 7,50 krónur.

Verð á bensíni í sjálfsafgreiðslu er nú 180 krónur en dísilolíulítrinn tæpar 200 kr. í sjálfsafgreiðslu. Önnur olíufélög hækkuðu verð hjá sér minna.

Verð á eldsneyti hefur aldrei verið hærra hér á landi.

Samúel Guðmundsson, framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs Olís, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að skýringu hækkunarinnar mætti enn og aftur finna í breytingum á heimsmarkaðsverði.

„Við lækkuðum í síðustu viku, en frá þeim tíma hefur heimsmarkaðsverð hækkað á ný. Hækkunin nú endurspeglar eingöngu breytingu á heimsmarkaðsverði.“

Ennfremur segir Samúel að krafa neytenda sé sú að verð lækki strax samhliða lækkunum á heimsmarkaði og það gangi því í báðar áttir.

Tonnið af bensíni á heimsmarkaði hækkaði fyrir helgi um 85 dollara og tonn af dísilolíu um tæpa 100 dollara.