Eldsneytisverð á Íslandi er nú í hæstu hæðum þrátt fyrir töluverða lækkun á olíuverði á heimsmarkaði að undanförnu. Er algengt sjálfsafgreiðsluverð á 95 oktana bensíni frá 196 til 199 krónum lítrinn og frá tæpum 196 til 197 krónum lítrinn á dísilolíunni. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur aftur á móti lækkað verulega eftir að hafa farið í um 80 dollara fyrir skömmu. Er verð hjá Brent í London nú rúmir 70 dollarar á tunnu og um 72 dollarar hjá WTI í New York. Reyndar hefur verðið verið aðeins verið að hækka síðustu klukkustundirnar.   Skýringin á hækkunum á eldsneytisverði hérlendis virðist einkum vera tvíþætt. Það er annars vegar vegna hækkunar opinberra gjalda á eldsneytisverð hérlendis og síðan umtalsverð hækkun á gengi dollars gagnvart krónu. Þannig var dollarinn skráður hjá Seðlabanka þann 1. desember 2009 á tæpar 122 krónur, en er nú á 129 krónur. Evran hefur aftur á móti lækkað á sama tíma gagnvart krónu úr 184 krónum í 176 krónur.