*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 29. júlí 2021 19:07

Eldsneytisverð fer áfram hækkandi

Eldsneytisverð hækkuðu síðast á þriðjudaginn en hæsta verð á höfuðborgarsvæðinu er í dag um 15% hærra en um áramótin.

Ritstjórn
Hækkun vikunnar gæti haft áhrif á kostnað við ferðalög fjölmargra um verslunarmannahelgina.
epa

Á þriðjudaginn hækkuðu eldsneytisfyrirtækin N1, Olís, ÓB og Orkan á höfuðborgarsvæðinu verð á bensínlítranum um tvær krónur. N1 hækkaði jafnframt verð á dísellítranum um tvær krónur en hin þrjú um eina krónu. Þetta kemur fram hjá gasvaktinni.

Samkvæmt verðkönnunarþjónustu GSMbensíns er almennt verð á bensíni á höfuðborgarsvæðinu nú hæst hjá N1, þar sem lítrinn kostar 257,9 krónur en lægst hjá Dælunni, þar sem lítrinn kostar á bilinu 235,9 til 244,9 krónur eftir staðsetningu.

Þá er almennt verð á dísel hæst hjá Olís, þar sem lítrinn kostar 237,30 krónur en lægst hjá Dælunni, þar sem lítrinn kostar á bilinu 226,9 til 229,9 krónur eftir staðsetningu.

Þá eru Orkan, ÓB, Dælan, Atlantsolía með sérstakar stöðvar sem selja eldsneyti á lægra verði. Bensínverð á þessum sérkjarastöðvum eru frá 215,3 upp í 216,9 krónur en díselverðið frá 206,7 upp í 207,8 krónur. Í báðum tilfellum lægst hjá Orkunni.

Að líkindum er nóg að gera á eldsneytisstöðvum höfuðborgarsvæðisins þessa vikuna, enda verslunarmannahelgin fram undan.

Eldsneytisverð farið hækkandi á árinu

Í lok síðasta árs var hæsta verð á bensínlítranum á höfuðborgarsvæðinu 224,9 krónur og hefur hæsta verð því hækkað um 33 krónur á árinu, eða tæp 15%.

Framvirkt verð á brentolíutunnu var 51,8 dalir undir lok síðasta árs en var við lokun markaða í gær 74,74 dalir og hefur því hækkað um rúm 44%.