Undanfarna fjóra mánuði hefur frumkvöðullinn Eva Michelsen, ásamt góðu teymi, unnið hörðum höndum að því að standsetja húsnæði í Kópavogi og gera það klárt fyrir Eldstæðið, deilieldhús fyrir matarfrumkvöðla, smáframleiðendur og áhugasama um matgæðinga.

Eldstæðið er nú komið með starfsleyfið og fyrstu framleiðendur að hefja starfsemi.

„Við erum afskaplega ánægð með viðtökurnar sem við höfum fengið og streyma inn allskonar fyrirspurnir í tengslum við aðstöðuna og hvað sé hægt að gera þar“ segir Eva. „Við erum afskaplega stolt og þakklát að geta unnið með frumkvöðlunum sem taka þátt í viðskiptahraðlinum.“

Icelandic Startups tilkynnti á dögunum að valin hefðu verið tíu sprotafyrirtæki úr hópi 70 umsókna til þátttöku í 10 vikna viðskiptahraðli fyrir nýjar lausnir í landbúnaði, haftengdum iðnaði og smásölu sem hefur göngu sína í byrjun næstu viku, það er mánudaginn 21. september.

Stór hluti þeirra lausna byggir á framleiðslu og vinnslu matvæla og hefur Matarauður Íslands veitt Eldstæðinu styrk til að taka á móti hópnum án endurgjalds meðan á hraðlinum stendur.

„Markmiðið með hraðlinum er að aðstoða frumkvöðla við að byggja upp næstu kynslóð fyrirtækja með því að veita þeim faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til viðskipti taka að blómstra, aðgangur að Eldstæðinu er því kærkomin og mikilvæg viðbót við verkefnið“ segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Icelandic Startups hefur umsjón með hraðlinum í samstarfi við Islenska sjávarklasann með stuðningi Nettó, Matarauðs Íslands og Landbúnaðarklasans.

Um þessar mundir er verið að vinna úr öllum þeim umsóknum sem Eldstæðinu hafa borist. Til stendur að hafa opið hús þegar aðstæður leyfa þar sem áhugasömum gefst tækifæri til að kynna sér aðstöðuna og það sem Eldstæðið hefur upp á að bjóða.