*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 8. júní 2021 14:21

Eldum rétt velti milljarði

Hagnaður Eldum rétt í fyrra nam 79 milljónum króna en velta félagsins jókst um helming og nam 1,13 milljörðum króna í lok árs.

Snær Snæbjörnsson
Kristófer Júlíus Leifsson og Valur Hermannsson, stofnendur Eldum rétt.
Haraldur Guðjónsson

Velta Eldum rétt ehf. jókst um rúmlega helming í heimsfaraldrinum og nam um 1,13 milljörðum króna árið 2020 samanborið við 738 milljónir árið áður. Í skýrslu stjórnar segir að samkomutakmarkanir á vormánuðum síðasta árs hafi leitt til aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu Eldum rétt. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár.

Sjá einnig: Salan aukist um 43% hjá Eldum rétt 

Hagnaðar félagsins jókst einnig mikið á tímabilinu og nam um 79 milljónum króna í fyrra miðað við 22 milljónir árið áður. Eignir félagsins hækkuðu um 98 milljónir króna á tímabilinu og námu 308 milljónum við lok árs. Þar af jókst handbært fé um rúmar 100 milljónir króna á árinu og nam 157 milljónum við lok árs.

Eigið fé félagsins hækkaði um tæpar 80 milljónir á árinu og var 194 milljónir í lok árs. Þá hækkaði eiginfjárhlutfall félagsins úr 54,8% árið 2019 í 63% á síðasta ári. Launa- og starfsmannakostnaður hækkaði um 67 milljónir á árinu og nam 219 milljónum í árslok 2020. Þá fjölgaði starfsfólki úr 28 manns í 36 manns á árinu.

Stærsti hluthafi Eldum rétt er framtakssjóðurinn Horn III slhf., í rekstri Landsbréfa, með helmingshlut. Stofnendur og framkvæmdastjórar Eldum rétt, þeir Kristófer Júlíus Leifsson og Valur Hermannsson, eiga síðan hvort um sig fjórðungshlut.