Eldum rétt hefur stefnt Álfasögu ehf., rekstrarfélagi matreiðslufyrirtækisins Dagnýjar & Co., og farið fram á að notkun þess á vörumerkinu Borðum rétt verði hætt. Kristófer Júlíus Leifsson, fram­kvæmdastjóri Eldum rétt, segir dómsmálið höfðað til staðfestingar á lögbannskröfu á Borðum rétt sem þegar hafi fengist samþykkt hjá sýslumanni. Hann segir fjölmörg dæmi þess að vörumerkjunum sé ruglað saman. Margir haldi að Borðum rétt sé tengt Eldum rétt þótt engin tengsl séu þar á milli.

„Við viljum ekki láta tengja okkur við þeirra rekstur á neinn hátt. Við höfum séð það á umferð á netinu, í samskiptum við viðskiptavini okkar og fólkið í kringum okkur að mikil ruglingshætta er klárlega til staðar,“ segir Kristófer. Borðum rétt eru tilbúnir réttir frá Dagnýju & Co. sem finna hefur mátt í matvöruverslunum.

Eldum rétt var stofnað árið 2014 og selur einstaklingum matarpakka sem innihalda uppskriftir og hráefni en viðskiptavinirnir sjá sjálfir um eldamennskuna. Matarpakkar Eldum rétt eru ýmist sendir heim til viðskiptavina eða þeir sækja þá í húsakynni Eldum rétt. Álfasaga á einnig félagið Einn tveir og elda ehf. sem er samkeppnis­aðili Eldum rétt og býður upp á sambærilega matarpakka með uppskriftum.

Tveggja ára samskipti ekki borið árangur

Kristófer segir að tilraunir til að fá Dagnýju & Co. til að hætta notkun á vörumerkinu Borðum rétt hafi ekki borið árangur. „Við erum búin að vera í löngu samskiptaferli við Dagnýju & Co. Við vorum að fara að kaupa lénið Borðum rétt árið 2017 þegar við sáum að það var frátekið. Það var þá sem við höfðum samband við þau fyrst og báðum um að vörumerkið yrði ekki notað.“

Kristófer bendir á að auðvelt sé fyrir Dagnýju og Co. að hætta notkun vörumerkisins Borðum rétt enda séu fyrirtækið með annað vörumerki í notkun fyrir sambærilegar vörur. „Þetta hefði lítil áhrif á þá og snýst eingöngu um þessa ruglingshættu,“ segir hann. Ekki fengust skýringar frá forsvarsmönnum Álfasögu við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná tali af þeim. Álfasaga er í eigu Ólafs Kristins Sigmarssonar sem er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um nýtt skipunarferli vegna skipunar dómara í Landsrétt
  • Mögulega verðlækkun á fasteignamarkaði með komu fjölda íbúða á markaðinn
  • Áhrif áætlana um að neyða sveitarfélög í sameiningar og samanburð á afkomu þeirra eftir stærð
  • Þróun peningastefnunnar bæði vestan hafs og austan þar sem gríðarlegir fjármunir eru á neikvæðum vöxtum
  • Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar er í ítarlegu viðtali þar sem hann segir frá stafrænum tæknilausnum
  • Sagt er frá nýrri tæknilausn fyrir smekklausa, sem geta nú fengið forrit til að greina rétta fatastílinn sinn
  • Ólöf Arnalds nýr starfsmaður Sahara upplýsir um dulnefnið sem hún notaði til að gagnrýna aðra tónlistarmenn
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um sameiningaráform formanns Framsóknar í smærri byggðum
  • Óðinn skrifar um Uber, leigubíla og borgarstjórnina í Reykjavík