Sænski raftækjaframleiðandinn Electrolux hefur gert samkomulag um kaup á raftækjahluta bandarísku risasamsteypunnar General Electric. Engir smáaurar eru í spilunum eða 3,3 milljarðar dala, jafnvirði um 390 milljarða íslenskra króna.

Breska útvarpið ( BBC ) og fleiri miðlar segja þetta umfangsmestu viðskipti Electrolux til þessa. Fyrirtækið er sterkt í Evrópu og er það markmið fyrirtækisins í að styrkja stöðu sína á bandarískum raftækjamarkaði. Helsti keppinautur Electrolux þar í landi er Whirpool, næst stærsta fyrirtækið á þessu sviði í heimi.

Electrolux framleiðir heimilistæki undir eigin merkjum en líka vörur undir merkjum Zanussi og AEG.