Föstudaginn 4. desember fór fram doktorsvörn við tölvunarfræðideild HR. Verjandi var Elena Losievskaja og varði hún doktorsritgerð sína Approximation Algorithms for Independent Set Problems on Hypergraphs. Íslenskur titill ritgerðarinnar er Nálgunarreiknirit fyrir óháð mengi á ofurnetum.

Leiðbeinandi verkefnisins var Magnús M. Halldórsson, prófessor við tölvunarfræðideild HR.

Ritgerðin fjallar um reikniaðferðir fyrir vel þekkt viðfangsefni í fléttufræði. Velja á sem flest stök með tilliti til skorða sem krefjast þess að ekki megi velja öll stök í ákveðnum hópum staka. Slíkar skorður mynda svokölluð ofurnet, sem er útvíkkun á netum. Þessi verkefni fanga á almennan hátt hagnýt viðfangsefni úr ýmsum greinum. Þar sem verkefnin eru reiknilega erfið er áherslan lögð á nálgunarreiknirit. Leidd eru út ýmis reiknirit og niðurstöður sem jafnast á það sem þekkt er fyrir einfaldari tilvik, s.s. net. Einnig er skoðað hversu vel má reikna þegar inntakið kemur í bunu (e. stream). Kynnt er nýtt bunureiknilíkan sem krefst lágmarksplássnotkunar, og leidd út reiknirit með nær bestu mögulegu nálgunareiginleika.

Elena Losievskaja er fædd í Rússlandi árið 1979. Hún lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum í Pereslavl Zalessky 1996. Hún lauk meistaraprófi frá Moscow State Engineering Institute (Technical University) í hagnýttri stærðfræði með sérhæfingu í lífupplýsingafræði 2002. Elena vann fyrri hluta doktorsnámsins við Háskóla Íslands og hún starfaði hjá Urði Verðandi Skuld frá 2002 til 2005. Hún starfar nú við Hjartavernd að lífupplýsingafræðirannsóknum. Elena er gift Tómasi Davíð Þorsteinssyni. Foreldrar hennar eru Nina og Lev Losievsky.