Greiningardeild Landsbankans hefði viljað að HB Grandi væri tekinn af markaði en félagið ekki flutt yfir á iSEC markaðinn, sem opnar á mánudaginn og er ætlaður minni og meðal stórum fyrirtækjum.

?Í greinargerð með beiðni um tilfærslu HB Granda af aðallista yfir á iSEC segir að tilgangurinn sé að koma í veg fyrir að félagið verði yfirtekið, þ.e. keypt af hæstbjóðenda. Þetta þykir okkur vera slæm þróun og teljum að eðlilegra hefði verið að afskrá félagið og leysa minni hluthafa út úr félaginu," segir greiningardeildin.

Stjórn HB Granda hefur sent inn umsókn þess efnis að félagið verði skráð á iSEC markaðinn og skráð af Aðallistanum. Þar er lagt til að félagið flytjist á milli markaða í september. Fari allt að óskum eru félögin á iSEC orðin þrjú: Hampiðjan, HB Grandi og Cyntellect en greint verður á mánudaginn frá framgangi hlutfjárútboðs þess síðast nefnda til fagfjárfesta.

?Af greinagerð sem fylgdi með beiðninni má skilja að markmið með þessum gjörningi sé að tryggja áframhaldandi viðskipti með bréf félagsins og varna því að félagið verði afskráð," segir greiningardeild Landsbankans um skráningu HB Granda á iSEC.

Þar er vitnað í verðmat sem greiningardeild Landsbankinn gerði á félaginu, dagsetta 31. maí á þessu ári.
?Í greiningu okkar komumst við að þeirri niðurstöðu að hluthafar HB Granda yrðu betur settir í dag ef fyrirtækið yrði leyst upp og eignir þess seldar heldur en að halda áfram óbreyttum rekstri," segir greiningardeildin þar sem gengi bréfa félagsins var orðið það lágt.

Greiningardeildin undrast að ákvörðunin um að færa félagið yfir á iSEC sé tekin af stjórn en ekki á hluthafafundi enda hefur gjörningurinn mikil áhrif á hluthafa félagsins.

? Á iSEC markaðnum eru ekki í gildi sömu takmarkanir á dreifingu eignarhalds og ákvæði laga um yfirtökuskyldu gilda ekki. Þá er upplýsingagjöf til fjárfesta minni. Því er líklegt að seljanleiki hlutabréfa í félaginu muni minnka, sem og flot bréfanna," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin mælir með sölu á bréfunum ef Kauphöllin samþykkir skráninguna.