Vendum
Vendum
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Ég vil vekja athygli á því að misrétti viðgengst á Alþingi,“ segir Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem á Alþingi í dag steig fram fyrir skjöldu þeirra sem klæðast gallabuxum. Hún sagði þingmenn ekki mega verða of forpokaða og gagnrýndi að buxur úr gallaefni virðist skör neðar í virðingarstiganum en buxur úr öðru efni.

Elín var sem kunnugt er í buxum úr efni sem líktist gallabuxnaefni á Alþingi á dögunum og var hún skikkuð til að hafa fataskipti. Helgi Bernódusson , skrifstofustjóri Alþingis, sagði í samtali við vb.is sama dag mörkin sett við gallabuxur á Alþingi og þær því á bannlista.

Elín fór í ræðu sinni á Alþingi í dag yfir sögu gallabuxna í víðu samhengi allt frá því þær litu dagsins ljós í borginni Genúa á Ítalíu og þar til þær slógu í gegn í Bandaríkjunum seint á 19. öld. Þá sagði hún buxurnar oft tengdar við kúreka og uppreisnaseggi.

Elín sagði ekki eina misréttið felast í því að gallabuxur séu bannaðar á Alþingi heldur virðist sumir litir á buxum leyfðir en aðrir ekki. Hún taldi nokkra upp og benti á að svo virðist sem buxur í bláum lit séu bannaðar.