Bankaráð Landsbankans ákvað í dag að auglýsa stöðu bankastjóra. Auglýsingin mun birtast á næstu dögum en núverandi bankastjóri gegnir stöðunni þar til nýr hefur verið ráðinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankaráði bankans.

Í tilkynningu sem Elín Sigfúsdóttir, núverandi bankastjóri sendi fjölmiðlum samhliða tilkynningu bankaráðs tekur hún fram að hún hafi verið beðin um stýra bankanum í gegnum þær breytingar sem upp komu í kjölfar þess ástands sem skapaðist á fjármálamarkaði í byrjun október.

„Ég hef frá upphafi gert mér grein fyrir því að starfið var tímabundið og mun ekki sækja um það þegar það verður auglýst,“ segir Elín í tilkynningunni.

„Að ósk bankaráðs mun ég sinna starfi mínu áfram þar til nýr bankastjóri hefur verið ráðinn.“