*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 8. mars 2012 09:48

Elín Jónsdóttir: Lítið mál að finna konur

Fyrrverandi forstjóri Bankasýslunnar segir faglegt að auglýsa eftir stjórnarmönnum fyrirtækja.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Elín Jónsdóttir
Haraldur Jónasson

„Það reyndist okkur ekki erfitt að skipa stjórnir með jöfn kynjahlutföll,“ segir Elín Jónsdóttir, fyrrverandi forstjóri Bankasýslu ríkisins. Á fundi um góða stjórnarhætti og kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja sem var að ljúka rifjaði hún upp þá aðferðafræði sem Bankasýslan viðhafði við val og ráðningu stjórnarmanna í sparisjóðum sem Bankasýslan eignaðist að öllu leyti eða hluta í forstjóratíð hennar.

Bankasýslan opnaði skráningarglugga á heimasíðu sinni þar sem auglýst var eftir þeim sem áhuga höfðu og hæfni til að sitja í stjórnum sparisjóða og varamenn þeirra. Þeir sem höfðu áhuga á því gátu sent Bankasýslunni upplýsingar í gegnum skráningargluggann. Rúmlega 200 manns sendu Bankasýslunni upplýsingar um sig, þar af voru 30% umsækjenda konur. Eftir það tók valnefnd til starfa sem horfði til reynslu umsækjenda og réð stjórnarmenn. Þetta fyrirkomulag sagði Elín hafa tryggt fagleg vinnubrögð við val á stjórnarmönnum.

Elín vakti jafnframt máls á þeirri hættu sem felist í því að stjórnir fyrirtækja setji á laggirnar tilnefninganefndir sem velji stjórnarmenn. Slíkt geti dregið úr valdi hluthafa fyrirtækja, í raun öfugþróun við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti ef ráðning stjórnarmanna færist á hendur valnefnda. Hún leggur því til að hluthafar skipi valnefndir á hluthafafundum. Með þeim hætti hafi hluthafar eitthvað um málið að segja.

Elín benti jafnframt á leiðir til að finna hæfar konur til setu í stjórnum fyrirtækja. Í fyrsta lagi geti gagnast að leita til kvenna enda hafi þeir almennt breiðara tengslanet á meðal kvenna en karlar og viðurkenni þær frekar en þeir hæfni og hæfileika annarra kvenna. Þá sé afar gagnlegt að auglýsa eftir stjórnarmönnum með svipuðum hætti og Bankasýslan hafi gert auk þess að leita skipulega eftir hæfum stjórnarmönnum. Við leitina eigi bæði að horfa til menntunar viðkomandi, starfsreynslu og þess geira sem viðkomandi starfi í.