Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur ráðið Elínu Jónsdóttur sem forstjóra stofnunarinnar frá og með 1. janúar 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórninni.

Elín er 43 ára gömul, lögfræðingur að mennt með cand. jur próf frá Háskóla Íslands og LL.M. gráðu frá Duke háskóla í Bandaríkjunum. Hún hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Elín starfaði sem lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu 2001 til 2005 og sem framkvæmdastjóri Arev verðbréfafyrirtækis 2005 til 2009. Þar á undan vann hún m.a. við lagadeild Duke háskóla, hjá Oz hugbúnaðarfyrirtæki og hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Elín hefur starfað fyrir rannsóknarnefnd Alþingis frá miðju sumri, en var auk þess skipaður umsjónarmaður lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar frá 19. júní til 1. september sl.

Elín er gift Magnúsi Gottfreðssyni lækni og eiga þau tvö börn.

Bankasýsla ríkisins var stofnuð með lögum á árinu 2009 til að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og ákveður Bankasýslan meðal annars stjórnarmenn þá sem ríkið á kost á að skipa í stjórnir þeirra fjármálafyrirtækja sem það á hlut í, á grundvelli tilnefninga óháðrar valnefndar.