Elín Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf deildarforseta lagadeildar Háskólans á Bifröst en hún hefur gegnt starfi umsjónarmanns laganáms skólans síðan í haust og unnið að stefnumótun um laganámið í samstarfi við stjórnendur skólans. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Háskólans á Bifröst .

„Elín er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með LL.M. gráðu frá Duke háskóla í Bandaríkjunum og MBA gráðu frá Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi, auk prófs í verðbréfaviðskiptum. Hún hefur starfað við lögfræði og stjórnun og hefur m.a. verið framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs Íslandsbanka, forstjóri Bankasýslu ríkisins og framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Arev. Þá hefur Elín viðamikla reynslu af stjórnarstörfum m.a. sem stjórnarformaður Tryggingarmiðstöðvarinnar, Regins fasteignafélags og Borgunar. Elín situr nú í stjórn Borgunar hf., Skeljungs hf., og Arnrúnar ses., sem er byggingarfélag Kvennaathvarfsins,“ segir í fréttatilkynningu háskólans.

Laganám við Háskólann á Bifröst hefur verið hluti af félagsvísindadeild frá árinu 2017 en á haustmánuðum var tekin ákvörðun um að stofna að nýju sérstaka lagadeild við skólann. Að mati Elínar sýnir sú ákvörðun að rektor og stjórn hafa mikla trú á lagadeildinni og vilja tryggja vöxt hennar og viðgang. „Fræðigreinin fær við það meiri áherslu í starfi innan skólans og stuðningur við nemendur og kennara eykst," er haft eftir Elínu í tilkynningunni.