Aðalfundur Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í dag í Húsi atvinnulífsins. Alls bárust sex framboð um almenna stjórnarsetu í stjórn SVÞ en kosið var um þrjú stjórnarsæti fyrir kjörtímabilið 2018 til 2020. Sjálfkjörið er í sæti SVÞ og aðildarfyrirtækja samtakanna í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins.

Á fundinum var lýst kjöri þriggja meðstjórnenda en þeir eru:

  • Elín Hjálmsdóttir hjá Eimskipum,
  • Gunnar Egill Sigurðsson hjá Samkaupum koma ný inn í stjórnina
  • Jón Ólafur Halldórsson hjá Olís, sem var endurkjörinn.

Aðrir í stjórn SVÞ eru frá fyrra ári:

  • Árni Stefánsson hjá Húsasmiðjunni,
  • Gústaf B. Ólafsson hjá Bitter ehf.
  • Ómar Pálmason hjá Aðalskoðun.

Ráðstefna um framtíðina

Síðar í dag, milli klukkan 14 og 16, halda samtökin svo ráðstefnu á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu undir yfirskriftinni „Framtíðin er núna“. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Magnus Lindkvist, framtíðarfræðingur og rithöfundur, sem mun ræða um af hverju fólk er svo slæmt í að hugsa til framtíðar.

Meðal annarra sem verða með ávörp er Lisa Simpson, sérfræðingur frá Deloitte í Dublin, en hún mun ræða um sambland bálkakeðjutækninnar við aðfangakeðjur. Jafnframt mun Margét Sanders, formaður SVÞ, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flytja ávörp.

Kjara- og menntamál stóru viðfangsefnin

Margrét Sanders hefur setið sem formaður samtakanna frá árinu 2014 en kosið er um formann til tveggja ára í senn. „Ég hlakka til að vinna með nýkjörinni stjórn SVÞ að þeim stóru viðfangsefnum sem við okkur blasa ekki síst í kjaramálum og í menntamálum atvinnulífsins,“ segir Margrét Sanders formaður SVÞ.

„Auk þess standa fyrirtæki í verslun og þjónustu nú frammi fyrir miklum breytingum þar sem ný tækni, breytt neysluhegðun, og möguleiki á annars konar nálgun í þjónustu mun hafa afgerandi áhrif á starfsemi fyrirtækja innan okkar raða. Verkefni stjórnarinnar verður því ekki síst að aðstoða fyrirtækin við að aðlaga sig að þeim breytingum sem framundan eru.“