Búið er að ráða þrjár konur til starfa hjá Samtökum iðnaðarins. Í tilkynningu kemur fram að þær Elínrós Líndal Ragnarsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir og Jóhanna Klara Stefánsdóttir hafi hafið störf hjá samtökunum.

Elínrós verður viðskiptastjóri á hugverka- og þjónustusviði SI og hafa umsjón með hugverkahópum innan samtakanna og stýra verkefnum þeim tengdum. Elínrós var stofnandi og forstjóri tískufyrirtækisins ELLA, hún hefur starfað sem blaðamaður, er með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu í stjórnun og fyrirtækjarekstri frá Háskólanum í Reykjavík.

Björg Ásta hefur verið ráðin sem lögfræðingur SI og mun starf hennar felast í ráðgjöf og aðstoð við félagsmenn, svo sem varðandi iðnlöggjöf, vinnurétt, fyrirtækjalöggjöf, samkeppnislög, útboðslög, ábyrgðarmál og verksamninga. Björg Ásta lauk mastersprófi í lögfræði frá HÍ og starfaði sem lögfræðingur hjá Félagi atvinnurekenda þar sem hún sinnti einkum málum á sviði vinnuréttar, tollaréttar og samninga- og kröfuréttar.

Jóhanna Klara er ráðin viðskiptastjóri á framleiðslu- og matvælasvið SI. Hún lauk grunn- og meistaranámi í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík og stundar nú nám í APME verkefnastjórnun. Jóhanna Klara var í starfsnámi hjá Einkaleyfastofu og starfaði nú síðast hjá Embætti umboðsmanns skuldara sem hópstjóri á samningasviði embættisins.

Í tilkynningunni er haft eftir Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SI, að hann sé mjög ánægður með nýja starfsfólkið. Unnið sé að því að breyta skipulagi og skerpa á stefnu samtakanna og að hluti af því ferli sé að stofna þrjú ný svið innan samtakanna. Þau eru Hugverka- og þjónustusvið, bygginga- og mannvirkjasvið og framleiðslu- og matvælasvið.