Elínrós Líndal, stofnandi og listrænn stjórnandi tískufatafyrirtækisins ELLA, hefur verið valin af The World Economic Forum til að skipa The Forum of Young Global Leaders. Elínrós er í hópi ungra stjórnenda undir 40 ára aldri frá 70 löndum sem valdir hafa verið vegna faglegs árangurs þeirra og áhuga á samfélaginu. Þeim er ætlað að vinna markvisst að því að hafa áhrif á stöðu heimsmála og skapa betri framtíð. Á meðal annarra Íslendinga á listanum í gegnum tíðina eru Björgólfur Thor Björgólfsson, sem komst á listann árið 2005, og listamaðurinn Ólafur Elíasson, sem var á honum árið 2006. Þá var Hrund Gunnsteinsdóttir hjá Krád consulting fyrst íslenskra kvenna til að vera valin í þennan hóp.

Á meðal þeirra sem lentu í valinu með Elínrós nú voru Chelsea Clinton, dóttir Bill og Hillary Clinton. Hún situr í stjórn samtakanna Clinton Foundation og fréttamaður hjá NBC News; Tawakkol Karman blaðamaður og Nóbelsfriðarverðlaunahafi, Sharmeen Obaid Chinoy Emmy og Óskarsverðlaunhafi, Mark Pollock fyrsti blindi maðurinn til að ná Suðurpólnum, Ida Auken, umhverfisráðherra Danmerkur, og Najat Vallaud-Belkacem, ráðherra kvenréttinda í Frakklandi.

Fram kemur í tilkynningu um málið að heiti tískuvörufyrirtækisins, ELLA, er gælunafn Elínrósar. Þar segir m.a. að Elínrós er sú fyrsta hér á landi sem tengir hönnun við „slow fashion“ og hefur búið til vörumerki sem hefur náð athygli. Elínrós er menntuð í sálarfræði og fjölmiðlafræði með MBA stjórnunargráðu. Hún hefur víðtæka reynslu á sviði tískunnar en hefur einnig starfað sem ritstjóri og blaðamaður.

Vill bæta heiminn

The World Economic Forum er sjálfstæð alþjóðastofnun sem ætlað er að bæta heiminn með því að fá leiðtoga úr viðskiptum, stjórnmálum, háskólum og listum til að koma saman og móta hvað er sett á dagskrá til að bæta heiminn. Valið er úr þúsundum kandídata alls staðar að úr heiminum þar sem um er að ræða einstaklinga sem þykja skara fram úr hvað leiðtogahæfileika varðar. Þetta er fólk sem telst vera leiðtogar næstu kynslóða. Þeir sem veljast taka að sér þær skyldur að verja hluta af tíma sínum næstu fimm árin í verkefnið og eru þá fulltrúar þeirra skoðana og hagsmuna sem tengjast þeirra kynslóð. Formaður valnefndarinnar er drottning Jórdaníu, Rania Al Abdullah. Þetta val er viðurkenning á framúrskarandi leiðtogahæfileikum, faglegum árangri, áhuga á samfélagsmálum og möguleika á að hafa áhrif á mótun framtíðarinnar.