Elísabet II Bretlandsdrottning hefur opnað síðu á vefnum Youtube.com og ætlar meðal annars að senda út jólaávarp sitt þar á jóladag kl. 15. Elísabet II tók við krúnunni árið 1952 og fimm árum síðar flutti hún sitt fyrsta jólaávarp í sjónvarpi. Það ávarp er aðgengilegt á nýju síðunni hennar og er forvitnilegt fyrir þá sök að margt af því sem þar er sagt mætti eins búast við að heyra nú, fimmtíu árum síðar.

Í ávarpinu fyrir hálfri öld ræddi drottningin meðal annars um tækniframfarirnar sem hún hefði ákveðið að nýta sér til að komast nær þegnum sínum. Um leið ræddi hún um áhrif hinna hröðu tækniframfara á líf hins almenna manns og hvernig þær geti valdið rótleysi. Hinar hröðu framfarir gætu valdið því að fólki kynni að reynast erfitt að átta sig á því hvað sé þess virði að í það sé haldið og hvað sé best að losa sig við. Drottningin unga hafði þó ekki áhyggjur af nýju tækninni, heldur þeim sem álitu að gamlar hugmyndir sem hefðu reynst vel væru orðnar úreltar og að þeim mætti kasta á glæ. Trú, siðgæði og heiðarleiki  voru á meðal þess sem drottningin hafði áhyggjur af og sagði að Bretland tapaði tiltrú í heiminum ef það héldi þessi gildi ekki í hávegum.