Fjölmiðlar hafa farið að velta því fyrir sér hvort Elísabet önnur Bretlandsdrottning muni verða sú næsta í röð aldraðra þjóðhöfðingja til að afsala sér krúnunni. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær afsalaði Jóhann Karl Spánarkonungur sér krúnunni. Hann er sá þriðji í röð þjóðhöfðingja á einu ári til að gera það. Í apríl 2013 afsalaði Betrix drottning Hollands sér krúnunni eftir 33 ára valdatíð og í júlí sama ár afsalaði Albert annar Belgíukonungur sér krúnunni vegna slæms heilsufars.

Elísabet önnur Bretlandsdrottning hefur verið við völd í Bretlandi í 62 ár og vegna hás aldurs hennar hefur Karl Bretaprins, sonur hennar, tekið það að sér að mæta á ýmsa viðburði fyrir hönd hennar.

Ólíklegt er þó talið að hún muni afsala sér krúnunni. Elísabet heldur áfram að sinna störfum sínum samviskusamlega og ferðast á milli landa og hafa vinsældir hennar aldrei mælst hærri. Árið 2012 hélt hún ræðu á breska þinginu þar sem hún sagðist lofa að þjónusta land sitt nú og á árunum sem munu koma. Hún sór eið fyrir framan Guð árið 1953 að þjóna landi sínu og fyrir henni virðist það vera lífstíðarstarf.