*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 24. maí 2018 08:55

Elizabeth og Jóhann til Advania Data Centers

Elizabeth Sargent er nýr samskiptastjóri og Jóhann Þór Jónsson nýr forstöðumaður hjá Advania Data Centers.

Ritstjórn
Elizabeth Sargent og Jóhann Þór Jónsson hafa tekið við nýjum stöðum hjá gagnageymslufyrirtækinu Advania Data Centers
Aðsend mynd

Tveir öflugir stjórnendur hafa bæst í ört stækkandi hóp sérfræðinga gagnaversþjónustu Advania, Advania Data Centers sem rekið er sem sjálfstætt fyrirtæki. Umfang starfseminnar hefur margfaldast á aðeins tveimur árum segir í fréttatilkynningu.

Elizabeth Sargent hefur verið ráðin í nýja stöðu samskiptastjóra. Hún mun stýra upplýsinga- og samskiptamálum gangvart erlendum mörkuðum, vinna með samstarfsaðilum og viðskiptavinum við tæknilega skjölun, skriftir og úrvinnslu efnis sem snýr að ofurtölvutækni og gagnaverum.

Elizabeth starfaði áður við upplýsingamiðlun fyrir Novomatic Lottery Solutions í Austurríki og sem verkefnastjóri hjá ráðgjafarfyrirtækinu Sasaki Associates í Boston í Bandaríkjunum. Hún er með BA gráðu í sagnfræði frá Yale og meistaragráðu í skipulagsfræðum frá Cornell háskólanum. Hún er búsett á Íslandi og hefur lokið BA námi við Háskóla Íslands, þar sem hún nam íslensku sem annað mál.

Jóhann Þór Jónsson, sem gegnt hefur starfi forstöðumanns rekstrarsviðs og áður fjármálastjóra Advania á Íslandi, hefur tekið við starfi forstöðumanns verkefnastofu og rekstrar. Jóhann Þór er formaður Samtaka gagnavera og hefur unnið að framgangi greinarinnar hérlendis. Hann var áður fjármálastjóri Skýrr og Kögunar og gegndi lykilhlutverki við sameiningu þeirra félaga sem runnu saman á árunum 2009-2014 og nú mynda Advania. Jóhann Þór er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers segir það mikinn hvalreka fyrir fyrirtækið að fá Elizabeth og Jóhann til liðs við félagið.

„Nú starfa um 100 manns við rekstur og uppbyggingu gagnaveranna okkar og á þessu ári erum við að fjárfesta í uppbyggingu félagsins fyrir um sex milljarða króna. Það er þó fyrst og fremst starfsfólkið sem skapar verðmæti fyrir félagið, en ekki tækin, og því er mikilvægt að fá til starfa einvala lið. Ég fagna því mjög að fá Elisabet og Jóhann Þór til liðs við okkur.”

Um Advania Data Centers

Advania Data Centers er hátæknifyritæki sem sérhæfir sig í rekstri gagnavera, ofurtölva, blockchain og tölvubúnaðar sem hannaður er til að hámarka reiknigetu. Meðal viðskiptavina eru virtar rannsóknar-, vídinda- og menntastofnanir, fartækjahönnuðir og -framleiðendur, tækni- og framleiðslufyrirtæki.  Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en félagið rekur einnig starfsstöðvar í Svíþjóð, Þýskalandi og Bretlandi.