Rekstur íslenskrar stóriðju er þungur þessi misserin. Hrávöruverð er lágt á heimsvísu sem sögð er vera afleiðing af bágri stöðu í heimshagkerfinu. Álverð  hefur ekki verið lægra í þrjú ár og verð á kísli og kísiljárni er í sögulegum lægðum. Slökkt var á stærsta ofni járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga í þrjá mánuði í sumar vegna lágs afurðaverðs.

„Við stoppuðum ofninn fyrst og fremst út af markaðsaðstæðum. Verð eru mjög lág og það borgaði sig eiginlega ekki að framleiða. Við vorum kannski að einhverju leyti að reyna að hafa áhrif á markaðinn en við sjáum ekki alveg beint að það hafi virkað,“ segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi.

„Erum í hörkubaráttu“

Einar segir framleiðslu komna á fullt á ný. Aðstæður á heimsmarkaði séu áfram erfiðar. Fyrirtækið hafi lagt áherslu á framleiðslu á sérhæfðari afurðum sem séu alla jafna stöðugri í verði en minna unnin vara. „Okkar viðskiptavinir eru stálframleiðendur. Þeir eru líka í vandræðum. Stálframleiðsla í Evrópu og Bandaríkjunum hefur dregist saman að undanförnu. Kína er eina landið þar sem hefur verið smá vöxtur en við erum ekki að selja til Kína. Við getum ekki keppt þar,“ segir Einar.

Fækka starfsfólki

Einar segir fyrirtækið leiti nú allra leiða til að hagræða. „Við erum í hörkubaráttu, þannig er lífið núna.“

„Við erum að vinna mjög harkalega í því að skera niður kostnað. Við höfum fækkað fólki lítillega og leitum í öllum skúmaskotum að sparnaði,“ segir hann. Starfsmönnum hafi fækkað um hátt í tuttugu en Einar leggur áherslu á að engum hafi verið sagt upp heldur hafi starfsfólki fækkað með öðrum leiðum, til að mynda í gegnum starfsmannaveltu. Um 170 manns starfi fyrir Elkem.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .