*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 6. nóvember 2019 14:28

Elko fær áfram að vera í fríhöfninni

Tvö fyrirtæki voru um hituna um að reka raftækjaverslun í Leifsstöð, en Elko verður næstu þrjú til fimm árin.

Ritstjórn
Fjölbreytt úrval verslana er í brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli en valið er inn í verslunarrýmin eftir gerð og úrvali og öðrum þáttum með útboðsferli.
Haraldur Guðjónsson

Isavia hefur valið raftækjaverslunina Elko í útboði um rekstur tveggja raftækjaverslana í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli, en að lokum voru tvö fyrirtæki um hituna. Er því ljóst að verslunin verður áfram með raftækjaverslunina í fríhöfn flugvallarins næstu þrjú til fimm árin.

Stefnt er að því að nýr samningur við félagið. til þriggja ára með möguleika á framlengingu um tvö ár, taki gildi í janúar næstkomandi. Við val á hagkvæmasta tilboði segir ríkisfyrirtækið að horft hafi verið til bæði tæknilegra- og fjárhagslegra matsþátta, en sjö aðilar sóttu útboðsgögn, tveir þeirra tóku þátt og báðir uppfylltu hæfiskröfur.

Útboðið hófst í júní síðastliðnum. Reksturinn var boðinn út þar sem fyrri samningur við Elko er að renna út. Óskað var eftir reynslumiklum aðila sem hefði yfir að ráða úrvali vörumerkja.

Gerð var sú krafa að viðkomandi hefði rekið að lágmarki tvær raftækjaverslanir samhliða síðastliðin þrjú ár og hefði yfir að ráða úrvali vörumerkja og vöruframboði sem samanstæði að minnsta kosti af farsímum, spjaldtölvum, snjallúrum, myndavélum, heyrnartólum, litlum hátölurum og heimilistækjum.

Við mat á tilboðum var m.a. horft til vöruúrvals, verðstefnu, þjónustu, mannauðsmála, hönnunar og upplifunar í verslun auk fjárhagslegra þátta. 7 aðilar sóttu útboðsgögn eftir að opnað var fyrir aðgang að þeim 18. júní síðastliðinn.

Tvö fyrirtæki sendu gögn til þátttöku, báðir uppfylltu hæfiskröfur og var þeim boðið til viðræðna. Í valferlinu var notast við viðræður og í kjölfar þeirra  skiluðu þátttakendur inn lokatilboðum. Valnefnd mat tilboðin til stiga en hún var skipuð tveimur fulltrúum frá Isavia og tveimur óháðum ráðgjöfum frá Deloitte og Capacent.

Gerður verður þriggja ára samningur við Elko um aðstöðu til reksturs tveggja raftækjaverslana í norðurbyggingu flugstöðvarinnar, önnur er ætluð farþegum á leið úr landi en hin er ætluð komufarþegum. Áætlað upphaf samningstíma er í janúar 2020.