Eftir að hafa selt 1.985.000 DVD diska í verslunum sínum frá árinu 1998, hefur ELKO ákveðið að hætta sölu á DVD myndum. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu. Því verður allur lager ELKO af DVD myndum nú settur á rýmingarsölu sem mun hætta þegar síðasti diskurinn er seldur. Þá mun ELKO hafa selt um 2.000.000 DVD diska frá upphafi.

„Þegar ELKO opnaði dyrnar fyrir fyrsta viðskiptavininum árið 1998, voru DVDdiskar eitt það fyrsta sem blasti við og hefur alla tíð síðan verið stór hluti af vöruúrvali verslunarinnar. En tímarnir breytast og í dag er hægt að nálgast allt þetta efni í gegnum hinar ýmsu streymisveitur. Áhorf á barnamyndir, sem hafa verið stór hluti af sölunni síðustu ár, er sömuleiðis að færast yfir í spjaldtölvur og streymisveitur í sjónvarpi og því komið að því að hætta alfarið með þennan vöruflokk og rýma fyrir nýjum vörum og nýjum tímum.“ segir Bragi Þór Antoníusson, markaðsstjóri ELKO.

Í haust mun ELKO opna sérstaka rafíþróttadeild í stað DVD deildarinnar, en rafíþróttir hafa vaxið gríðarlega í vinsældum síðustu árin, ekki síst með stofnun Rafíþróttasamtaka Íslands og stuðningi nokkurra íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu. ELKO ætlar sér að taka þátt í þeirri þróun af fullum krafti og mun meðal annars bjóða upp á aðstöðu í versluninni til að koma og spila leiki á besta mögulega búnaði sem til er hverju sinni.