Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur samið við ELKO um að hefja verslunarrekstur í flugstöðinni, segir í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir að verslunin, sem verður rúmlega 200 fermetrar, muni opna um leið og annar hluti af nýju brottfararasvæði flugstöðvarinnar verður tilbúin vorið 2007.

ELKO er ein stærsta raftækjaverslun landsins og hefur frá upphafi verið leiðandi á sínu sviði. ELKO hefur það að markmiði að bjóða þekkt vörumerki raftækja á lágu verði. Á boðstólnum verða myndavélar, DVD spilarar, símar, leikjatölvur, Ipod, MP3 og önnur smærri tæki.

Hingað til hafa þessir vöruflokkar verið seldir í Fríhöfninni ehf. en með þessu er Flugstöð Leifs Eiríkssonar að stuðla að frekari rekstri einkaaðila á starfssvæði sínu.

Samningurinn er einn þáttur í að bæta þjónustu við flugfarþega meðal annars með auknu framboði á vörum og vörumerkjum, auk þess að auka hlut einkaaðila í verslun í flugstöðinni en sú stefna var mótuð þegar ráðist var í forval um val á verslunaraðilum.