„Það er svo dýrt fyrir samfélagið að búa til drasl. Þegar þú kaupir kjól á 10.000 krónur þá getur þú gert ráð fyrir að þú sért að taka þátt í að koma illa fram við starfsfólk einhverstaðar,“ segir Elínrós Líndal, stofnandi og stjórnandi tískuhússins Ella. Hún segir í samtali við Viðskiptablaðið að eigi vara að vera góð þá þurfi hún að kosta sitt.

„Það er alltaf dýrt þegar þú ætlar að búa til gæði. Ef þú reiknar dæmið til enda þá kemstu líka alltaf að því að þú sparar með því að kaupa gæði. Vegna þess að þú veist að það kostar ekki 8.000 eða 4.000 krónur að sauma kjól. Og þú veist að það þarf að hanna hann, kaupa efni og svo framvegis. Þessi kjóll endist þér kannski í hálft ár. Á meðan þú getur fjárfest í gæðameiri kjól, sem kostar kannski 60.000 krónur, og notað hann svo í 20 ár,“ segir Elínrós.

„Til að setja þetta í samhengi þá seldum við 1.200 einingar á fyrsta tímabilinu okkar,“ segir Elínrós. „Um helmingurinn af því voru ilmvötn. Nýtt fyrirtæki sem kemur inn á þennan markað getur miðað við að selja 50-150 einingar á sama tímabili, svo að þetta gekk mjög vel. En til samanburðar selur hraðtískufyrirtæki tugi þúsunda af vörum sínum.“

Nánar er fjallað um tískuhúsið í í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.