Unnið er að undirbúningi útrásar tískuhússins Ellu í New York í Bandaríkjunum. „Það eru kannski tvö ár þar til við stígum þangað en við erum vissulega að undirbúa það samhliða öðru. Það getur líka vel verið að borgin sé ekki rétti markaðurinn fyrir okkur og þá þurfum við að reyna annað. En við stefnum þó þangað vegna þess að það eru margir sem heimsækja heimasíðuna okkar þaðan og þar eru okkar helstu viðskiptasambönd,“ segir Elínrós Líndal, stofnandi og eigandi tískuhússin.

Elínrós segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið það ekki vera spurningu hvort Ella verður til í framtíðinni eða ekki.

„Hún er fædd og hún verður til. Hún er að taka þátt í að skrifa tískusöguna. Við erum að breyta, hafa áhrif og skapa verðmæti fyrir samfélagið,“ segir Elínrós. Aðspurð um framtíð- arstefnuna gangi allt að óskum segist hún sjá Ellu fyrir sér sem alþjóðlegt tískuhús. „Við ætlum aldrei að verða stærsta tískuhús í heimi. En við myndum alveg vilja verða það flottasta. Jafnvel það verðmætasta – og best rekna,“ segir hún sannfærð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.