*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 15. maí 2018 16:59

Ellefu félög lækkuðu

Eftir græna byrjun á deginum enduðu aðeins Eimskip, Skeljungur, N1, Sjóvá og Origo á hækkun í kauphöllinni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,55% í 2,5 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði kauphallarinnar. Aðalvísitalan lækkaði um 0,28%. Skuldabréfavísitalan stóð í stað og þá lækkaði markaðsvísitala GAMMA um 0,08%.

Alls hækkaði gengi fimm félaga á aðalmarkaði í viðskiptum dagsins: Eimskip (2,24%), Skeljungur (1,40%), Origo (1,20%), Sjóvá (0,95%) og N1 (0,46%). Ellefu félög lækkuðu í verði á markaði og var lækkunin mest hjá Reitum fasteignafélagi (-1,28%). Á First North hækkaði gengi Iceland Seafood International um 1% og þá hækkaði gengi Kviku banka um 0,64%, en önnur félög stóðu í stað.

Á skuldabréfamarkaði nam veltan 1,4 milljörðum með ríkisskuldabréf. Verð á RIKB 25 hækkaði um 0,07% og stóð ávöxtunarkrafan í 5,14% í lok dags. Mest lækkaði verðið á RIKS 21 og nemur krafan 2,03%. Óverðtryggð skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,02% en sú verðtryggða lækkaði um 0,01%. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 0,01%.

Á gjaldeyrismarkaði styrktist krónan um 1,17% gagnvart Bandaríkjadollar (1 dollar = 103,58 kr.), 0,57% gagnvart breska pundinu (1 pund = 139,94 kr.) og 0,16% gagnvart evrunni (1 evra = 122,80 kr.).