Heilbrigðisstofnun Austurlands og tíu aðrar aðrar stofnanir sem heyra undir velferðarráðuneytið hafa verið reknar með yfirdráttarlánum. Slíkt er óheimilt og verður ráðuneytið að slíkt verði ekki gert. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem ítrekar að vinna þurfi á uppsöfnuðum halla heilbrigðisstofnunarinnar og að tryggt verði að rekstur hennar rúmist innan fjárheimilda. Af 163 milljóna skuldum Heilbrigðisstofnunar Austurlands í lok síðasta árs voru 82 milljónir króna yfirdráttarlán.

Ríkisendurskoðun leggur á það áherslu, að verulegt áhyggjuefni sé hversu illa heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur gengið að halda rekstri sínum innan þess ramma sem Alþingi setur. Þá segir í skýrslunni að af 11 heilbrigðisstofnun hafi 7 verið reknar með halla og fjórar á yfirdráttarlánum.

Á vefsíðu Ríkisendurskoðunar kemur fram að í febrúar fyrir þremur árum hafi komið fram ábendingar sem lutu m.a. að fjárreiðum Heilbrigðisstofnunar Austurlands, undirbúningsvinnu vegna sameiningar heilbrigðisstofnana og stefnumörkun og árangursstjórnun sjúkrastofnunarinnar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að brugðist hafi verið við flestum ábendingum. Eftir standi að stofnunin hafi verið rekin með halla undanfarin ár. Uppsafnaður halli í lok síðasta árs hafi numið 113 milljónum króna. Skammtímaskuldir námu 163 milljónum króna og voru yfirdráttur á á bankareikningum 82 milljónir króna.