Tæplega ellefu hundruð manns greiddu þátttökugjald á landsfundi Samfylkingarinnar um  helgina en um tvö þúsund manns hjá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Áður hafði verið gefið út að um sautján hundruð manns tækju þátt á Samfylkingarfundinum.

Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að talan sautján hundruð sé til komin vegna þess að Samfylkingarfélög skrái tiltekinn fjölda á fundinn í samræmi við stærð hvers félags. Sá fjöldi hafi hins vegar ekki skilað sér.

Sigrún telur að um þrettán hundruð manns hafi verið við setningarathöfnina á föstudeginum. Þeir sem greiði þátttökugjaldið hafa einir rétt til þess að kjósa á fundinum. Þátttökugjaldið var 2.500 krónur.

Tæplega eitt þúsund manns kusu í varaformannskjöri flokksins en um sex hundruð og sextíu manns í formannskjörinu sem fram fór skömmu síðar.

Um sautján hundruð tóku þátt í formannskjöri

Þátttökugjaldið á fundi Sjálfstæðisflokksins var átta þúsund krónur. Það greiddu um tvö þúsund manns, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu flokksins.

Rétt rúmlega sautján hundruð tóku þátt í formannskjöri flokksins og um sextán hundruð manns tóku þátt í varaformannskjörinu.