Alcan, sem rekur álverið í Straumsvík, keypti verkfræðiþjónustu fyrir ellefu milljarða króna þegar til stóð að stækka álverið. Þá keypti fyrirtækið einnig dýran búnað sem stendur óhreyfður á plani við verksmiðjuna. Rannveig Rist, forstjóri Alcan, greinir frá þessu í samtali við Fréttablaðið í dag.

Framleiðslugeta álversins er 190 þúsund tonn. Eftir hrun voru gerðar áætlanir um að auka framleiðsluna í 230 þúsund tonn, eða um 20%. Það hefur ekki gengið eftir og eins og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun júní stendur nú til að auka framleiðsluna um 8%.

Rannveig Rist segir í samtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, að róðurinn sé þungur hjá álverinu um þessar mundir. „Álver er lágt og er búið að vera lágt í langan tíma. Á sama tíma eru þau aðföng sem við þurfum að kaupa dýrari en áður. Við kaupum súrál og rafskaut erlendis frá og bæði aðföngin hafa hækkað í verði.,“ segir Rannveig.

Hér heima sé það svo raforkan en fyrirtækið greiði meira fyrir hana en áður hafi verið gert, meðal annars vegna þess að álverðstengingin er ekki lengur við lýði.

Sú 8% framleiðsluaukning sem stefnt er að mun nást með breytingum á rafmagnsbúnaði. Þá hafa aðrar framkvæmdir gengið vel. Breytingum á rafmagnsbúnaði í aðveitustöð er lokið og áfram verður unnið að breytingum á steypusklála svo álverið geti að fullu skipt yfir í framkleiðslu á álstöngum í stað álbarra. Álstangirnar eru verðmætari vara.

Þá var ráðist í viðbætur við lofthreinsibúnað, en þeim breytingum lýkur á næsta ári. Einnig var ráðist í ýmis önnur verkefni svo sem innleiðingu á stærri rafskautum sem kallaði á miklar breytingar í skautsmiðju.