Rekstrartekjur lyfjafélagsins Alvotech hf. ríflega tvöfölduðust á síðasta ári og námu rúmum 64 milljónum dollara, andvirði tæplega 7,9 milljarða króna á gengi dagsins. Hið sama gilti aftur á móti um tap frá rekstri en það rétt tæplega tvöfaldaðist og nam 134 milljónum dollara.

Þótt rekstrartekjur hafi aukist þá drógust heildartekjur saman. Ástæðan er sú að árið 2019 seldi félagið óefnislega eign fyrir 45 milljónir dollara. Verkefnakostnaður og annar rekstrarkostnaður hækkaði samanlagt um 42 milljónir dollara. Tap fyrir skatta nam 213 milljónum dollara, var 140,5 milljónir dollara árið 2019, en félagið nýtti sér tæplega 122 milljón dollara skattinneign. Endanlegt tap var því rúmlega 91 milljónir dollara, ríflega 11 milljarðar króna á gengi dagsins.

Félagið er enn í uppbyggingarfasa og vinnur að því að fá markaðsleyfi fyrir fyrstu lyf félagsins í Bandaríkjunum. Félagið hefur gefið það út að það stefni á 500 milljarða í rekstrartekjur árið 2027 gangi allt eftir og að það skili um 20% af útflutningstekjum þjóðarbúsins.

Samanlagðar eignir félagsins námu í árslok 447,6 milljónum dollara og jukust um 110 milljónir dollara á árinu. Skuldir félagsins lækkuðu skarpt, úr 712 milljónum dollara í 253 milljónir en stóran hluta þeirrar breytingar má rekja til lækkunar á skuldum við tengda aðila. Þær voru 511,6 milljónir dollara í ársbyrjun 2020 en námu 7,4 milljónum dollara í árslok. Hlutafé félagsins var hækkað á árinu, úr 46 þúsund dollurum í tæpar 3,3 milljónir dollara. Inni á yfirverðreikningi hlutafjár mátti síðan finna 720 milljónir dollara. Eigið fé var jákvætt um 194 milljónir dollara í árslok 2020 en var neikvætt um 374 milljónir í byrjun sama árs.

„[Félagið] er háð fjármögnun frá móðurfélagi sínu og af þeirri ástæðu er óvissa með getu félagsins til að starfa áfram á grundvelli rekstrarhæfis. Viðskiptaáætlanir Alvotech eru byggðar upp á áframhaldandi þróun líftæknihliðstæðulyfja næstu árin áður en þau verða sett á markað á helstu alþjóðlegum mörkuðum. Fjármögnun félagsins á þróunarfasa þess mun koma úr mismunandi áttum, þ.m.t. hlutafé og lánum frá hluthöfum og lánastofnunum,“ segir í skýringum við ársreikninginn.

Í lok október 2020 og í mars á þessu ári kláraði móðurfélagið 100 milljóna dollara hlutafjárútboð. Félagið telur sig hafa tryggt aðgengi að fjármagni áfram á fyrri helmingi þessa árs en á síðari hluta þess er áætlað að skráningarferli þess á markað muni ljúka. Því er ætlað að tryggja fjármögnun þess til framtíðar.

Meðalfjöldi starfsmanna var 380 á liðnu ári og fjölgaði meðalstöðugildum um 125. Launakostnaður til starfsmanna hækkaði um tæplega milljón dollara. Laun námu 38,8 milljónum dollara, samanborið við 24 milljónir dollara árið 2019, en á móti námu greiðslur samkvæmt kaupaukakerfi 10 milljónum dollara en þær voru 28,4 milljónir dollara 2019. Tæplega sjö milljón dollarar voru færðir vegna kaupaukakerfis stjórnenda. Meðal langtímaskulda eru 45,7 milljónir dollara færðar vegna kaupaukakerfisins.