Frá aldamótum hefur ríkissjóður alls endurgreitt tæpan 21 milljarð króna vegna kostnaðar við framleiðslu kvikmynda á verðlagi dagsins í dag, en helmingur þess hefur komið til á síðustu sex árum. Frá 2016 hafa þannig verið greiddar 10.810 milljónir króna til 131 framleiðanda fyrir alls 360 verkefni, en sundurliðun niður á einstakar greiðslur er ekki aðgengileg lengra aftur í tímann.

Ríflega helmingurinn eða 5,6 milljarðar fór í 282 innlend verkefni en 5,1 milljarður í 70 erlend, og 110 milljónir í átta verkefni sem skilgreind voru sem samframleiðsla innlendra og erlendra aðila. Miklar sveiflur hafa verið í skiptingu eftir uppruna milli ára frá 2019.

Sjá einnig: Endur­greiðslu­heimildin verði rýmkuð eftir þörfum

Sjónvarpsþættir voru yfir helmingur verkefna og fyrir þá fengust 56% heildarupphæðarinnar á tímabilinu en afgangurinn kvik- og heimildamyndir til helminga. Kvikmyndirnar voru þó öllu dýrari og fengu alls um 4,4 milljarða endurgreidda samanborið við 378 milljónir fyrir heimildamyndir.

Séu úthlutanir skoðaðar eftir framleiðendum fór yfir helmingur upphæðarinnar til umsvifamestu þriggja þeirra: Reykjavík Studios, Truenorth og Sagafilm, fyrir 66 verkefni. Pegasus stóð einnig upp úr í fjórða sætinu með tæpan milljarð samanborið við 341 milljóna endurgreiðslur til Glassriver í fimmta sætinu.

Hæsta einstaka endurgreiðslan nam 509 milljónum króna til Truenorth vegna Fast and the Furious 8 árið 2016, og sú lægsta 213 þúsund krónur fyrir heimildarmyndina Íslenska krónan árið 2017.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.