*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 21. júní 2021 14:52

Ellefu milljónir fengust í skattkröfuna

Svo til ekkert fékkst upp í 11,4 milljarða lýstar kröfur í þrotabú gamla Eimskips. Langstærsta krafan var frá íslenska ríkinu.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Alls komu 11,3 milljónir króna upp í lýstar kröfur í þrotabú A 1988 ehf., þrotabú gamla Eimskips, en lýstar kröfur voru tæplega 11,4 milljarðar króna eða rúmlega þúsund sinnum hærri. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. 

Bú félagsins var tekið til skipta í vor og gengu skiptin hratt fyrir sig. Svo virðist sem ein almenn krafa hafi borist í búið, sú var frá Skattinum, en engar forgangs- eða veðkröfur bárust skiptastjóra. 

Félagið var eitt þeirra sem fór illa út úr hruninu en í ágúst 2009 náði það nauðasamningum við kröfuhafa sína. Í þeim fólst að kröfuhafar fengu 11,9% krafna sinna greiddar með hlutum í Nýja-Eimskip. Eftirgjöf skulda samkvæmt samningnum var 91 milljarður króna og það taldi Skatturinn að fæli í sér skattskyldar tekjur. Sú niðurstaða var staðfest í Hæstarétti í janúar 2016 en sama dag staðfesti rétturinn einnig úrskurð ríkisskattstjóra um að fella niður niðurfelldar skuldir til frádráttar á móti fjárfestingu. 

Þetta eru ekki einu dómsmálin sem tengjast félaginu en árið 2019 var félagið dæmt til að greiða Samskipum 98 milljón krónur í skaðabætur vegna samkeppnisbrota á árunum 2003-2006. Áður hafði félaginu verið gert að greiða 230 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna sömu brota. Fyrir jól komst Landsréttur síðan að þeirri niðurstöðu að nauðasamningurinn stæði því í vegi að Samskip gæti fengið milljónirnar 98 í heild sinni. Þess í stað hefði greiðsla í formi hluta í Eimskipum, að virði 14,4 milljón króna, verið fullnægjandi greiðsla og féllu vextir ekki á höfuðstólinn.

Stikkorð: A 1988