Ellefu nemendur voru í dag útskrifaðir úr framhaldsnámi Stóriðjuskóla ISAL og er það í annað sinn sem útskrifað er úr framhaldsnáminu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcan á Íslandi en Stóriðjuskólinn hefur verið starfræktur við álverið í Straumsvík í hart nær ellefu ár en framhaldsnámið hóf göngu sína haustið 2004 og var fyrsti hópurinn útskrifaður í febrúar 2006. Hópurinn sem útskrifaðist í dag hóf nám haustið 2007.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra var viðstaddur athöfnina og ávarpaði gesti. Sagði hann starfrækslu Stóriðjuskólans vera sérlega lofsvert framtak.

Útskriftarnemarnir, sem nú hljóta titilinn Áliðjugreinir, eru:

Elfa Guðmundsdóttir, Guðmundur Jónsson, Guðni Gunnarsson, Hörður Gestsson, Ívar Smári Magnússon, Jakob Þór Jakobsson, Jórunn Silla Geirsdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Sigríður Theodóra Eiríksdóttir, Sigurður Höskuldsson og Tryggvi Þór Svansson.

Viðurkenningu fyrir bestan námsárangur hlutu:

  1. Tryggvi Þór Svansson, aðaleinkunn 9,5
  2. Kristján Þórður Snæbjarnarson, aðaleinkunn 8,93
  3. Jakob Þór Jakobsson, aðaleinkunn 8,86.

Viðurkenningu fyrir ástundun hlaut Elfa Guðmundsdóttir með 100% mætingu.

Í tilkynningu Alcan kemur fram að framhaldsnámið stendur þeim starfsmönnum til boða sem hafa iðnmenntun eða hafa lokið grunnnámi í Stóriðjuskólanum. Auk sérfræðinga ISAL, sem sinna kennslu samhliða reglubundnum störfum sínum við álverið, er kennslan í höndum samstarfsaðila frá Borgarholtsskóla, Tækniskólanum, Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum, Enskuskólanum og Dale Carnegie.

Skipulag og umsjón með náminu er í höndum Hörpu Bjargar Guðfinnsdóttur, leiðtoga fræðslumála hjá ISAL.