Hugbúnaðarfyrirtækið TM Software hefur á skömmum tíma bætt við sig 11 starfsmönnum, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar er haft eftir Ágústi Einarssyni, framkvæmdastjóra TM Software, að alger viðsnúningur hafi orðið í starfseminni. Vöxturinn nái til allra sviða TM Software, hvort sem um ræði heilbrigðislausnir eða þróun á eigin hugbúnaði til sölu á erlendum vettvangi.

Hann segir að góð afkoma hafi verið af rekstri TM Software á síðasta ári; eigin hugbúnaðarframleiðsla hafi skilað yfir 55% af heildartekjum fyrirtækisins og erlendar tekjur hafi numið um 30% af heildartekjum. Hann segist gera ráð fyrir því að tekjur af starfsemi erlendis aukist enn frekar á þessu ári og að tekjur af eigin hugbúnaðargerð verði stöðugt hærra hlutfall af heildarveltu þess.

Hjá félaginu starfa nú 80 manns.