*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 23. mars 2015 13:55

Ellefu prósent af tekjum Advania frá hinu opinbera

Heildartekjur Advania árið 2014 námu 24,8 milljörðum, en þar af komu 2,7 milljarðar frá hinu opinbera.

Kári Finnsson

Fjársýsla ríkisins er á lokametrum þess að semja við Advania um hýsingu á bókhaldskerfi ríkisins sem nefnist Orra-kerfið. Advania (áður Skýrr) hefur séð um kerfið frá því að það var fyrst innleitt árið 2001.

Advania hefur alla tíð séð um rekstur Orra-kerfisins og var með lægsta gilda tilboðið í útboði Fjársýslu ríkisins um hýsingu kerfisins. Samkvæmt upplýsingum frá Advania voru heildartekjur fyrirtækisins árið 2014 24,8 milljarðar króna en þar af voru 2,7 milljarðar vegna viðskipta við hið opinbera. Það þýðir að um 11% af tekjum Advania koma frá viðskiptum við ríki og sveitarfélög.

1.020 manns starfa samtals hjá Advania og af þeim starfa 89 hjá Stjórnsýslulausnum eða um 8,7% allra starfsmanna. Stjórnsýslulausnir sinna verkefnum og þjónustu fyrir opinbera aðila, fjármálastofnanir og ýmis einkafyrirtæki bæði hér heima og erlendis.

Alls koma 25 starfsmenn Advania beint að þjónustu, rekstri og þróun kerfa frá Oracle, fyrir bæði opinbera aðila og einkafyrirtæki hér á landi og erlendis, en Orra-kerfið er byggt á Oracle E-business Suite kerfinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Advania