Ellefu starfsmönnum hefur verið sagt upp hjá sveitarfélaginu Árborg og breytingar hafa verið gerðar á starfshlutfalli 70 starfsmanna. Um leið verða laun 11 yfirstjórnenda áfram skert. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sveitarfélaginu.

Yfirvinnu fjölda starfsmanna hefur einnig verið sagt upp að hluta eða öllu leyti og bifreiðastyrkir lækkaðir eða feldir niður. Í fjárhagsáætlun bæjarins árið 2009 nam hagræðing og niðurskurður um 300 milljónum króna frá því sem áætlun ársins 2008 gerði ráð fyrir. Í áætlun er gert ráð fyrir að tekjulækkun ársins verði 160 milljónir króna og fjármagnskostnaður verði áfram mjög mikill.