Ellefu smávirkjanir sem nýlega tengdust dreifikerfi rafmagns hérlendis eru starfandi án rekstrarleyfis samkvæmt raforkulögunum, að því er fram kom í úttekt starfshóps um smávirkjanir sem skilað hefur iðnaðarráðherra áliti ásamt tillögum um breytingar á lögum.

Mikil þörf á að eyða óvissu og skerpa reglur

Starfshópurinn telur nauðsynlegt að allri óvissu varðandi framkvæmdaeftirlit verði eytt og að ákvæði skipulags- og byggingarlaga og raforkulaga um framkvæmd eftirlits með virkjunarframkvæmdum verði samræmd þannig að raunverulegt og reglubundið framkvæmdaeftirlit fari fram á byggingartíma. “Telur starfshópurinn að vandamál sem komið hafa upp vegna virkjunarframkvæmda sýna að mikil þörf er á að skerpa á reglum hvað þetta varðar og tryggja að opinbert eftirlit fari reglulega fram á byggingartíma virkjana. Annars vegar til að tryggja öryggi mannvirkja og hins vegar til tryggja að umhverfisáhrifum framkvæmda væri haldið í lágmarki í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu og útgefin leyfi,” segir í skýrslu hópsins.

Stór hluti ekki verið háður eftirliti

Hópurinn segir ljóst að stór hluti virkjunarframkvæmda vegna smávirkjana, t.d. í sumum tilvikum stíflugerð og lagning þrýstivatnspípu, hafi í raun ekki verið háður neinu reglubundnu framkvæmdaeftirliti. Vill hópurinn að öll mannvirkjagerð við virkjanir verði byggingarleyfisskyld og háð reglubundnu byggingareftirliti. Þá verði sett í löggjöf ákvæði um samvinnu og samráð iðnaðarráðuneytis, Orkustofnunar og byggingaryfirvalda við útgáfu leyfa til þess að tryggja samræmi milli þeirra.