Ellen Loftsdóttir hefur verið ráðin dagskrárstjóri HönnunarMars 2020. Síðastliðin 12 ár hefur Ellen starfað við við stíliseringu og listræna stjórnun fyrir íslensk og erlend fyrirtæki auk tískutímarita á borð við I-D magazine, ELLE, Glamour, Euroman og Costume.

Hún var listrænn stjórnandi hjá Reykjavik Fashion Festival í 4 ár og lærði tísku, PR & comunication við London Collage of Fashion. Ellen er einnig stofnandi og listrænn stjórnandi Favorite Magazine, sjálfbært tískutímarit sem selt er í yfir 20 verslunum út heim allan.

Ellen hefur tekið til starfa sem dagskrárstjóri fyrir HönnunarMars 2020 og ber ábyrgð á að halda utanum dagskrá hátíðarinnar í samstarfi við stjórnanda HönnunarMars, Þóreyju Einarsdóttur, 6 manna valnefnd og aðra verkefnastjóra hátíðarinnar.

Í því felst meðal annars undirbúningur dagskrár og vinna að dagskráliðum sem Hönnunarmiðstöð framleiðir svo sem Design Diplomacy og DesignMatch. Hún mun vinna með sýnendum og þátttakendum í að tryggja sem bestu gæði í dagskránni hvað varðar staðsetningar, tímasetningar og tengingar á milli viðburða og sýninga.

Lokað hefur verið fyrir umsóknir á HönnunarMars 2020, en hátíðin fer fram dagana 25-29 mars. Jafnframt er búið að opna fyrir miðasölu á alþjóðlegu ráðstefnuna DesignTalks hefur fest sig í sessi sem einn af lykilviðburðum HönnunarMars.

Þann 26. mars 2020 munu framúrskarandi hönnuðir, arkitektar og hugsuðir ræða síbreytilegt hlutverk hönnunar í heimi nýrra áskoranna og stórfelldra breytinga undir þemanu NÝR HEIMUR // NÝJAR LEIÐIR.

Viðburðinum er stjórnað af Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuði, ráðgjafa og framtíðarrýni og ásamt henni mun Robert Thiemann vera kynnir en hann er stofnandi og aðalritstjóri FRAME.