Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir í færslu á vefsíðu sinni að það kæmi honum ekki á óvart þótt enn ætti margt eftir að koma úr skugganum um aðkomu DV að lekamálinu svokallaða. Tók hann sig til um helgina og rýndi í umfjöllun og gögn um málið.

Elliði segir í færslunni, líkt og Andrés Magnússon hafði áður bent á í fjölmiðlapistli í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag:

„Hún hefur þannig ekki farið hátt sú staðreynd að mánudaginn 2. desember sendi Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, tölvupóst undir nafninu [subject]: „Minnisblaðið komið!“. Viðtakandinn var hvorki fréttastjóri, ritstjóri eða nokkur annar starfsmaður DV heldur Katrín Oddsdóttir, lögmaður hælisleitanda sem fjallað var um í minnisblaðinu. Í upphafi póstsins segist Jón Bjarki hafa fengið minnisblaðið „eftir krókaleiðum“.“

Segir Elliði að það veki athygli og undrun að fyrsta frétt DV sem byggi á minnisblaðinu komi fjórum dögum eftir sendingu tölvupóstisins, eða þann 6. desember. „Þann dag segir Jón Bjarki frá því á vef blaðsins að DV hafi „óformlegt minnisblað um hælisleitendurna Tony Omos og Evelyn Glory Joseph undir höndum.“ Í fréttinni kemur fram að DV hafi fengið minnisblaðið frá „ónafngreindum heimildarmanni.““

Elliði heldur áfram: „Ekkert var sagt frá því að blaðamaður DV hafði þá verið með minnisblaðið í 4 daga. Enginn veit hvernig þetta komst til blaðamanns DV. Ekkert var sagt frá því að hann hafði fjórum dögum áður sent minnisblaðið á lögmann hælisleitanda, sem daginn eftir kærði málið til ríkissaksóknara. Ekki hefur verið útskýrt af hverju minnisblaðið var sent frá blaðamanni DV frá vinnunetfangi hans ([email protected]) undir nafninu „Minnisblaðið komið!“. Enginn veit af hverju blaðamaðurinn upplýsti ekki lesendur sína um þetta mikilvæga minnisblað heldur sendi það á lögmann sem ekki tengist blaðinu.“

Þá segir Elliði að það veki líka undrun hafi blaðamaður DV myndað einhvers konar teymi eða bandalag með lögmönnum úti í bæ sem áttu hagsmuna að gæta í málinu. DV hefði þannig flutt fréttir af því þegar aðrar kærur voru sendar inn út af sama máli og hafi vitað um þær á undan ráðuneytinu.

Að lokum segir hann: „Um leið og ég óska Hallgrími Thorsteinssyni til hamingju með nýtt starf sem ritstjóri DV vil ég hvetja hann til að upplýsa lesendur um það hvers vegna fjölmiðillinn sem hann tekur nú við stjórn á upplýsti ekki lesendur sína tafarlaust um að hann hefði komist yfir hið örlagaríka minnisblað? Hver eru tengsl blaðsins eða blaðamanna við samtök sem berjast gegn áætlunum og vinnulagi Innanríkisráðuneytisins? Hefur blaðið eða blaðamenn haft áhrif á atburðarrás þessa máls á markvissan máta? Hafa þeir unnið með lögmönnum sem eiga hagsmuna að gæta í málinu?“