*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 19. ágúst 2015 13:42

Elliði: Framkoma Gunnars Braga honum til skammar

Elliði Vignisson segir utanríkisráðherra hafa hótað framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra þann stjórnmálamann sem mesta ábyrgð beri á því að markaðir fyrir uppsjávarfisk séu nú í uppnámi. Þetta skrifar hann í pistli á vefsíðu sinni.

Elliði segir að Gunnar Bragi beri ábyrgð á því að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan komi sennilega til með að lenda í miklum vanda. Auk þess beri hann ábyrgð á því að starfsmenn Síldarvinnslunnar tapi tekjum og einhverjir vinnunni. Þessi ábyrgð geri ákvörðun um viðskiptabann gegn Rússum hvorki rétta né ranga, en hún geri það hins vegar að verkum að ákvörðunin sé gagnrýniverð.

„Það er eðlilegt að stjórnmálamenn þurfi að ræða veigamiklar ákvarðanir sem snerta íbúa landsins. Það er eðlilegt að þeir þurfi að svara fyrir gjörðir sínar.  Ef þeir ráða ekki við að gera slíkt á málefnalegan hátt þá eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.,“ skrifar Elliði.

Hann segir að í stað þess að sýna því skilning að orð og gjörðir í utanríkismálum hafi afleiðingar fyrir íbúa þess lands og fyrirtæki og mæta þannig gagnrýni af stillingu hafi Gunnar Bragi brugðist hinn versti við. 

„Steininn tók úr þegar utanríkisráðherrann og þingmaðurinn gekk svo langt í viðtalsþættinum „Á Sprengisandi“ að viðhafa lítt duldar hótanir um að ef Gunnþór hefði ekki vit á að halda sig til hlés –halda kjafti- þá yrði fiskveiðistjónunarkerfið endurskoðað.  Ef Gunnþór tjáir skoðanir sem ekki eru stjórnmálamanninum þóknanlegar megi allt eins búast við því að eignir hans og tengdra aðila verði gerðar upptækar,“ segir Elliði jafnframt.

Elliði segir að þessar „alvarlegu hótanir“ hafi ráðherrann kryddað með brigslum um arðgreiðslur og oflátungshátt Síldarvinnslunnar. „Ég vil trúa því að ráðherran hafi hér hlaupið á sig og þetta tilvik sé ekki dæmigert fyrir hann.  Eftir stendur að framkoman að þessu sinni var honum ekki samboðin heldur til skammar.“

Pistill Elliða.