Á fundi bæjarstjórnar Ölfus, sem fram fór fyrr í kvöld, samþykkti bæjarstjórn að ráða Elliða Vignisson sem bæjarstjóra sveitarfélgsins.

Alls sóttu 24 um starf bæjarstjóra en sex völdu að draga umsókn sína til baka í matsferlinu.

Elliði hefur um 20 ára reynslu af sveitarstjórnarmálum og hefur starfað sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum seinustu tólf ár. Samhliða hefur Elliði mikla reynslu af samstarfi sveitarfélaga, m.a. á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og þekkir því vel til sveitarstjórnarmála á Suðurlandi. Hann er lærður sálfræðingur og kennari bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Elliði hefur störf hjá sveitarfélaginu 8. ágúst nk.

Elliði er giftur Berthu Johansen og eiga þau tvö börn.

„Við teljum það mikinn feng fyrir sveitarfélagið að fá Elliða til liðs við okkur. Hann hefur sýnt og sannað að í honum býr kraftur sem eftir er tekið, einlægur talsmaður síns samfélags, sókndjarfur baráttumaður fyrir sína umbjóðendur og faglegur rekstrarmaður. Ölfusið stendur nú frammi fyrir ómældum tækifærum sem mikilvægt er að stýrt verði af festu og ákveðni. Markmið okkar er að byggja hér upp samfélag sem sameinar kosti þess að búa í nánu samfélagi á landsbyggðinni, með sterka innrigerð og öflugt atvinnulíf og þess að geta nýtt þá miklu kosti sem fylgja því að vera í nábýli við borgina. Með þetta í huga bjóðum við Elliða velkominn til starfa,“ segir Gestur Þór Krisjánsson, forseti bæjastjórnar.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri:

„Tilveran á það til að taka óvænta stefnu. Nú í vor tók tilvera mín - og um leið fjölskyldu minnar - óvænta stefnu og mín beið ákvörðun um hvar næst skyldi bera niður hvað atvinnu og ef til vill búsetu varðar. Eitt af því sem ég skoðaði alverlega var að flytja mig um set og þyggja áhugaverð boð um stjórnunarstöðu í einkageiranum. Sterk viðbrögð með áskorun um að sækja um stöðu bæjar- og sveitarstjóra víða um land voru mér þó það kær að ég ákvað að skoða þann kost vandlega.

Eftir að hafa ígrundað stöðu þeirra sveitarfélaga sem auglýstu eftir stjórnendum og þau verkefni sem þar eru framundan og taldi ég að Ölfus væri ekki eingöngu eindæma áhugavert og sterkt samfélag heldur byggi það yfir framtíðartækifærum sem vart eiga sér hliðstæðu á Íslandi. Þannig má sem dæmi nefna að Ölfus er landmikið sveitarfélag með útflutningshöfn í nágrenni við alþjóðaflugvöll, orkuvinnslu, ferðaþjónustu og nálægð við gjöful fiskimið sem og borgina með þeim kostum sem því fylgir. Til að bæta um betur hafa kjörnir fulltrúar í samtarfið við íbúa valið sér slagorðið „Hamingjan, er hér“ og það þykir mér einmitt eiga að vera útgangspunktur í störfum okkar í almenningsþjónustu, að auka lífsgæði íbúa.

Það eru spennandi verkefni sem bíða í Ölfusi. Ég er auðmjúkur frammi fyrir því að vera treyst fyrir þátttöku í þeim verkefnum sem framundan eru og mun í samstarfi við kjörna fulltrúa og íbúa þessa góða samfélags gera allt sem í mínu valdi stendur til að standa undir því trausti sem mér er sýnt.“