Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir við Morgunblaðið í dag að óánægju gæti innan bæjarstjórnar Vestmannaeyja að ekki hafi verið haft samráð um kosningu meirihluta í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja. Hingað til hafi fulltrúar ríkisins og heimamanna unnið náið saman að endurreisn sparisjóðsins og haft samráð um uppstillingu í stjórn.

Tekið skal fram að ríkið á 55% eignarhlut í sparisjóðnum. Vestmannaeyjabær á 10% hlutafjár eftir að hafa lagt fram 100 milljónir króna þegar hann var endurreistur.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir við Morgunblaðið að strangur laga- og reglurammi gildi um tilnefningar í stjórnir fjármálafyrirtækja, sem ekki er unnt að hvika. Aðeins sé hægt að velja fólk sem sérstök valnefnd hefur útnefnt.

Elliði segir að Bankasýslan hagi sér eins og gert sé í óvinveittri yfirtöku fyrirtækja.