Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans segir liggja fyrir síðar í sumar hvernig brugðist verði við kvörtunum um aðgang dómskvaddra matsmanna að gögnum um verðmat stofnjár í Sparisjóði Vestmannaeyja. Fyrr í sumar fékk ráðið erindi Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar um aðganginn sem eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var heftur af starfsmönnum Landsbankans.

Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar vill að Landsbankinn sýni lágmarkssanngirni og afhendi nauðsynleg gögn til þess að matið geti farið fram að því er segir í Fréttablaðinu . Hvatti bæjarráð Vestmannaeyja í síðustu viku bankaráðið til að tryggja að ekki verði komið í veg fyrir að fram fari trúverðugt mat á því hvert verðmæti stofnfjár sparisjóðsins var þegar bankinn tók sjóðinn yfir í mars 2015.

Telja fyrrverandi stofnfjáreigendur, þar með talið bærinn og Vinnslustöðin, að á þá hafi verið hallað verulega við yfirtökuna. Hafi þeir því fengið dómskvadda matsmenn til að leggja mat á verðmæti endurgjalds bankans við yfirtökuna á sjóðnum en Landsbankinn hafi hins vegar synjað matsmönnunum um gögnin með vísan til bankaleyndar.