Elliði Vignisson og fjölskylda hans.
Elliði Vignisson og fjölskylda hans.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, ætlar að gefa kost á sér sem oddviti sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum í sveitarstjórnarkosningum í vor. Hann segir á vef sínum að í vor verði liðin 12 ár frá því hann gaf fyrst kost á sér í ábyrgðarstörf fyrir Vestmannaeyjabæ og átta ár síðan hann varð bæjarstjóri.

Elliði skrifar og birtir myndina af sér og fjölskyldu sinni sem sjá má hér:

„Eftir næstum 12 ár sem bæjarfulltrúi og átta ár sem bæjarstjóri er reynslan orðin nokkur. Til að mynda hef ég nú setið 178 bæjarráðsfundi og 129 bæjarstjórnarfundi.  Ég hef setið í fjölmörgum fagráðum og ráðgjafahópum.  Átt aðkomu að stjórn bæði fjármála-, þekkingar og velferðarfyrirtækja og lagt fram fleiri minnisblöð og áætlanir en ég hef tölu á. Þessum árum seinna er ég því hvorki ungur né óreyndur.  Ólíkt því sem áður var ber ég orðið nokkuð gott skynbragð á hvað felst í þeirri ákvörðun að bjóða sig fram til setu í bæjarstjórn.  Ég veit að slíkt ætti enginn að gera nema að hann sé tilbúinn til að gefa sig allan að verkinu.  Hann hafi til þess tíma, nennu og vilja.  Hann beri metnað fyrir bæjarfélaginu og sé tilbúinn til að gefa því a.m.k. fjögur ár af ævi sinni.“