Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir í tilkynningu til fjölmiðla að niðurstaða Hæstaréttar í máli bæjarins gegn Síldarvinnslunni og Q44 sýni að forkaupsréttur sveitarfélaga samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða sé ekki virkur. Þar með sé sú litla vörn sem löggjafinn hafi byggt inn í lögin að engu höfð.

Hann segir að krafa sjávarbyggða nú hljóti því að vera að skerpt verði á ákvæðinu forkaupsrétt og tryggt verði að útgerðir geti ekki á markvissan máta farið fram hjá vilja löggjafans með lagatæknilegum æfingum.

„Vestmannaeyjabær mun í framhaldi af þessum dómi óska eftir fundi með Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til að ræða þessi mál með það að leiðarljósi að treysta enn frekar hagsmuni sjávarbyggða og þar með sjávarútvegs á Íslandi,“ segir að lokum í tilkynningu Elliða.