*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 11. nóvember 2013 09:01

Ellilífeyrisþegar í mál við Landsbankann í Lúxemborg

Breskir ellilífeyrisþegar telja sig hafa verið svikna í viðskiptum við Landsbankann.

Ritstjórn
Gamli Landsbankinn í Lúxemborg.
Aðsend mynd

Hópur breskra lífeyrisþega sem búsettur er á Spáni, Frakklandi og í Portúgal hefur höfðað sakamál á Spáni gegn forsvarsmönnum Landsbankans  í Lúxemborg vegna fjársvika. Í Fréttablaðinu í dag segir að ellilífeyrisþegarnir séu í fjárhagslegum kröggum eftir hrun Landsbankans og hafi þessir fyrrverandi viðskiptavinir bankans stofnað hópinn „LandsbankiVictims Action Group“ gegn bankanum.

Dómstóll í borginni Dénia á Spáni hefur nú þegar hafnað beiðni hópsins í sambærilegu máli, þar sem um sé að ræða mál af einkaréttarlegum toga frekar en sakamál. Talsmaður hópsins segir nokkra ellilífeyrisþeganna hafa látið áður en málið náði lengra og geti svo farið að eftirlifandi makar þeirra missi hús sitt til slitastjórnar Landsbankans. Í fyrra voru yfir 120 meðlimir hópsins búsettir á Costa del Sol og Costa Blanca á Spáni og hafa rúmlega 16 látist síðan þá.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar Landsbankans á Íslandi, segir í samtali við Fréttablaðið málið ekki snerta slitastjórnina með neinum ætti. „Landsbankinn í Lúxemborg var sjálfstætt félag, dótturfélag Landsbankans, og heyrir ekki undir þrotabú gamla Landsbankans. Uppgjör á kröfum milli bankans og þess í Lúxemborg hefur farið fram og við höfum engin afskipti af þessum málum,“ sagði Páll.